You are currently viewing Fréttabréf Hollvina Heilsustofnunar 2023
Hollvinir HNLFÍ

Fréttabréf Hollvina Heilsustofnunar 2023

Gleðilegt ár kæru hollvinir og takk fyrir þau liðnu.

Óneitanlega hefur starfsumhverfi stjórnarinnar verið hagfelldara í ár en árin á undan, sem einkenndust af Covid 19.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og að geta komið reglulega á stofnunina, eiga samskipti við gesti í sal og sjá með eigin augum það sem betur má fara er frelsandi og fjölgar félögum, jafnt og þétt.

Stjórn Hollvinasamtakanna, sem nú hefur starfað í 18 ár, leita stöðugt leiða til að kaupa tæki og tól sem fjársvelt stofnunin getur ekki fjármagnað vegna stöðugra niðurskurða í fjárlögum.

Þannig hafa samtökin náð að kaupa kostnaðarsöm tæki til lækninga, heilsuræktar, húsbúnað en ekki síst til tómstunda og dægrardvalar. Upptalningu má sjá hér.

Á þessu ári hefur stjórnin einnig unnið skipulega að innri málefnum, s.s. að fjarlægja nöfn þeirra sem ekki hafa greitt árgjald til samtakanna í áraraðir, endurskoða heimasíðu og bæta upplýsingar um samtökin.  

Hollvinasamtökin hafa tekjur af bingókvöldum þar sem velunnarar stofnunarinnar hafa gefið rausnarlega vinninga en helstu tekjur samtakanna, þar sem skráðir félagar eru í dag 882.

Árgjaldið er nú 3.000 kr. og það er til mikils að vinna fyrir velunnara og aðstandendur Heilsustofnunar að fjáröflun okkar gangi vel.

Greiðsluseðill mun birtast í heimabanka.

Rafdrifinn hjólastóll

Á þessu ári hefur róðurinn verið hertur varðandi öflun félaga og gjafir til bingóvinninga en einnig með auknum stuðningi frá fyrirtækjum og félagsmönnum sem sjá sér fært að leggja meira af mörkum. Framlögum og félagsumsókn má koma á framfæri við stjórn í tölvupósti eða í hugmyndakassa sem hanga uppi við matsal og hjúkrunarvakt. Þetta gildir einnig um hugmyndir að betra starfi og framboð í stjórn. 

Hollvinasamtökin eru lýðræðisleg samtök. Næsti aðalfundur er þriðjudaginn 30. maí nk. kl. 20:00 í Kapellunni í Heilsustofnunni Hveragerði og þar getur allt félagsfólk látið rödd sína heyrast og boðið sig fram til ábyrgðarstarfa, en lög samtakanna má sjá hér.  

Í stjórn samtakanna eru sjálfboðaliðar sem hafa persónulega reynslu af starfi stofnunarinnar og þeim kraftaverkum sem þar gerast. Það eru forréttindi að fá að starfa í Hollvinasamtökum Heilsustofnunar NLFÍ og fá tækifæri til að láta gott af sér leiða til að auðvelda gestum dvölina og gera hana ánægjulegri. 

Við þökkum fyrir auðsýnt traust og tækifæri til að sýna þakklæti okkar í verki.

Fyrir hönd stjórnar, Þorleifur Gunnlaugsson, formaður Hollvinasamtaka Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands.

Gong sett, fjögur hjól og tvo hjólaskýli

Aðalfundur

Aðalfundurinn verður haldinn í Kapellunni á Heilsustofnun, þriðjudagskvöldið 30. maí 2023 kl. 19.30.

Hefðbundin aðalfundarstörf

Stjórnarkjör 2022

Allir félagar geta gefið kost á sér til stjórnarþáttöku sem verður afgreidd á lýðræðislegan hátt.

Þeir sem hafa áhuga á stjórnarsetu eða öðrum stuðningi við Hollvinasamtökin geta sett skilaboð í þar til gerða kassa á stofnuninni, sent póst á netfangið heilsa@heilsustofnun.is eða sett sig í samband við Þorleif Gunnlaugsson í síma 820 4020 

Núverandi stjórn Hollvinasamtakanna

Eftirtaldir sitja í stjórn

  • Þorleifur Gunnlaugsson formaður, kosinn til eins árs.
  • Valdimar Júlíusson kosinn til tveggja ára, 2022-2024
  • Ólöf Guðrún Hafsteinsdóttir, kosin til tveggja ára, 2022-2024
  • Margrét Grímsdóttir 2021-2023
  • Ólafur Hjálmarsson 2021-2023

Í varastjórn, kosin til eins árs:

  • Þuríður Guðrún Hauksdóttir
  • Ómar Einarsson

Skoðunarmenn reikninga, kosnir til eins árs

  • Indriði Helgason
  • Þorkell Sævar Guðfinnsson