Fundargerð
Mættir: Til aðalfundar komu 12 fundarmenn á Heilsustofnun.
Setning fundar. Ólafur Hjálmarsson formaður stjórnar setti fundinn og bauð gesti velkomna. Hann lagði til að Drífa Hjartardóttir verði fundarstjóri og var það samþykkt.
Fundarstjóri, Drífa Hjartardóttir þakkaði traustið og lagði til að Ingi Þór Jónsson ritaði fundinn og það var samþykkt. Fundurinn er löglega boðaður og gengið var til dagskrár.
Skýrsla stjórnar. Ólafur Hjálmarsson formaður, flutti skýrslu stjórnar, haldnir voru 7 formlegir fundir og þess utan samtöl og samskipti á netinu og í síma. Formaður sagði samstarf stjórnar afar gott, samheldinn hópur sem vill láta gott af sér leiða, og minnir á að stjórnarstörf eru sjálfboðavinna. Á fundardögum reynir stjórn að nota tækifærið og nýta aðstöðuna í baðhúsinu og borða matinn góða hér á Heilsustofnun. Góður andi ríkir á Heilsustofnun bæði meðal dvalargesta og starfsmanna enda var Heilsustofnun kjörin Stofnun ársins í sínum flokki þriðja árið í röð.
Á síðasta aðalfundi var Ólafur Hjálmarsson kjörinn formaður en auk hans eru í stjórn þau Margrét Grímsdóttir, Ómar Einarsson, Þuríður Guðrún Hauksdóttir og Valdimar Júlíusson.
Í varastjórn voru kosnar þær Ingibjörg Jónsdóttir og Drífa Hjartardóttir.
Skoðunarmenn reikninga voru kosnir þeir Indriði Helgason og Þorkell Sævar Guðfinnsson
Formaður þakkaði Margréti Grímsdóttur og Inga Þór Jónssyni sérstaklega fyrir þeirra störf í þágu samtakanna.
Megin verkefni stjórnar er að bregðast við þörfum dvalargesta og fjármagna kaup á tækjum og búnaði sem helst er talið vanta. Og ekki má gleyma öllum þeim aðilum sem hafa stutt við starfsemi Hollvina og nefndi formaður dæmi um bingó sem Arna Soffía Dal hefur staðið fyrir þar sem safnast hafa umtalsverðar fjárhæðir sem renna beint í sjóð Hollvina en einnig nefndi formaður listamennina Theodór og Jón Aðalstein sem hafa málað listaverk og selt í þágu samtakanna.
Kaup á tækjum og tólum á liðnu ári
- Reiðhjól – Hjólagrindur – Viðhald og viðgerðir á reiðhjólum
- Jógaheilunarskálar
- Bocciasett – Kubbsett
- Hjólastóll – taska – sessa
- Hnakkstóll – Nuddbekkir
- Veltibekkur
- Hraðsuðukanna
- Poolborð, pílur og spil
- Stuðningspúðar
- Rafskutla
- Vitamixblandari
- Vatnstæki á vegg
- Garðhúsgögn
- Kristalskálar-Regnstafur-Yogamottur
- Handlóð
- Greitt fyrir söngskemmtanir
- Skilti – auglýsing
Ársreikningur. Margrét Grímsdóttir gjaldkeri fór fyrir ársreikning félagsins. Heildartekjur voru 2.942.120 kr. og greiddu 722 hollvinir árgjald. Heildarkostnaður 4.373.721 kr. Sjóðstaða í lok árs 2021 var 2.383.738 kr.
Fundarstjóri bar upp skýrslu stjórnar og reikninga samtakanna sem fundurinn samþykkti.
Tilnefningar til trúnaðarstarfa. Samkvæmt lögum skal formaður kosinn til eins árs í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir hvert ár og varamenn kjörnir til eins árs.
- Lagt er til að Ólafur Hjálmarsson verði kjörin formaður til eins árs.
- Lagt er til að Valdimar Júlíusson og Þuríður Guðrún Hauksdóttir verði kjörin meðstjórnendur til tveggja ára, 2024 – 2026.
- Lagt er til að Drífa Hjartardóttir og Ingibjörg Jónsdóttir verði kjörnar sem varamenn til eins árs.
- Lagt er til að Indriði Helgason og Þorkell Sævar Guðfinnsson verði kjörnir skoðunarmenn reikninga.
Engar aðrar tillögur lágu fyrir og fundarstjóri bar upp tilnefningarnar til trúnaðarstarfa fyrir fundinn sem voru samþykktar.
Lagabreytingar. Engar tillögur um lagabreytingar lágu fyrir fundinn.
Árgjald. Fráfarandi stjórn leggur til að árgjaldið verði það sama og síðasta ár, 3.500 kr. og var það samþykkt.
Önnur mál.
Ólafur Hjálmarsson formaður kvaddi sér hljóðs og sagði stórafmæli á næsta ári en þá verða Hollvinasamtökin 20 ára og Heilsustofnun 70 ára. Ingi Þór Jónsson lagði fram tillögu um að stjórn fengi það verkefni að standa að afmælisári með myndarbrag og í samráði við framkvæmdastjórn Heilsustofnunar. Fundarstjóri bar tillöguna upp og hún var samþykkt.
Þórunn fundargestur sagði að starfið hér á Heilsustofnun væri frábært, hér líður henni vel og sagði að í raun ættu allir sem hingað koma að vera félagar í Hollvinasamtökunum
Fundarstjóri þakkaði fundargestum fyrir komuna og góða fundarsetu, fundi slitið kl. 20:00.
Fundaritari
Ingi Þór Jónsson