You are currently viewing Aðalfundur 2022

Aðalfundur 2022

Aðalfundur Hollvinasamtaka Heilsustofnunar haldinn í Kapellunni á Heilsustofnun
þann 31. maí. 2022 kl. 19.30

Fundargerð

Mættir: Til aðalfundar komu 20 fundarmenn á Heilsustofnun.

Setning fundar. Þorleifur Gunnlaugsson formaður stjórnar setti fundinn og bauð gesti velkomna. Hann lagði til að Þórir Haraldsson verði fundarstjóri og var það samþykkt. Hann lagði einnig til að Ingi Þór Jónsson verði fundarritari og var það samþykkt.

Fundarstjóri, Þórir Haraldsson þakkaði traustið og talaði mikilvægi Hollvinasamtakanna. Fundurinn er löglega boðaður og gengið var til dagskrár.

  1. Skýrsla stjórnar. Þorleifur Gunnlaugsson formaður flutti skýrslu stjórnar en skömmu eftir  síðasta aðalfund var merkilegum tímamótum fagnað þegar heimildarmynd um frumkvöðulinn Jónas Kristjánsson lækni var frumsýnd.

Þó svo að vágesturinn hafi haft áhrif á störf stjórnar og hamlað eðlilegum samskiptum við dvalargesti og starfsfólk þá kappkostaði stjórn að starfa á eins eðlilegan hátt í þessum aðstæðum. Haldnir voru átta formlegir fundir auk ýmissa óformlega samskipta og tvisvar tekist að stíga á stokk í matsal Heilsustofnunar til að kynna samtökin.

Það er ekki hægt annað en að hæla starfsfólki stofnunarinnar sem, þrátt fyrir rekstrarumhverfi sem á köflum virtist óyfirstíganlegt, tókst að halda starfseminni gangandi allan þennan tíma og það með bros á vör sem einhver sagði að hefði jafnvel  sést í gegnum grímurnar. 

Þetta hefði þó aldrei gengið nema vegna ábyrgrar þátttöku dvalargesta, mótaðri af reynslu þeirra sem sem í gegnum tíðina hafa tekið á honum stóra sínum í baráttu við vanlíðan og sjúkdóma.

Ingi Þór Jónsson var starfsmaður stjórnar sem og Elín Harpa Jóhannsdóttir og voru þeim færðar þakkir. 

Megin verkefni stjórnar er að bregðast við þörfum dvalargesta, e.a. safna fé og kaupa það sem helst vantar. Tekjulind félagsins er annars vegar félagsgjöld og hins vegar tekjur af bingókvöldum. Þar hafa Valdimar Júlíusson og Ólafur Hjálmarsson staðið fremstir í flokki og haldið stórglæsileg bingókvöld.

Stjórn Hollvinasamtakanna fór ítarlega yfir kostnað sem fylgir því að senda bréfpóst og/eða greiðsluseðla til Hollvina. Rafræn, pappírslaus samskipti eru umhverfisvæn og af þeim er sáralítill kostnaður og sá kostur valinn til framtíðar en lögð á það áhersla að þeir sem ekki eru tengdir við internetið fái áfram send bréf á hefðbundin hátt. 

Ákveðið var að í janúar yrði sent fréttabréf stjórnar í síðasta skipti í bréfpósti þar sem þetta yrði allt skýrt út en þegar til kom sendi bankinn greiðsluseðla án okkar vitneskju og fréttabréfið fór ekki með eins og áætlað var. Það var því úr að það var sent, rafrænt en ekki í bréfpósti enda hefði það kostað hátt í 200 þúsund krónur.

Stjórn hugaði að heimasíðu og Facebook og uppfærði lista yfir gjafir frá Hollvinum. 

Kaup á tækjum og tólum:

  • Keyptur var og komið fyrir vönduðum bekk sunnaverðu við Varmá, gestum til yndisauka 
  • Keypt voru ásláttarhljóðfæri, magnari og gítar í Kapellu, gestum til skemmtunar
  • Keyptar voru jógadýnur og kubbar,  gestum til slökunar 
  • Keyptar voru flothettur fyrir slökun í vatni, gestum til þæginda
  • Keyptir voru tveir lazyboy stólar inni í Auðarsal gestum til enn meiri slökunar
  • Samþykkt voru kaup á Gong fyrir slökunartíma sem er nú í pöntun.
  • Einnig stuðlaði stjórn að kaupum og uppsetningu útiþvottasnúra og sjónvarps í RUV-salinn

Stjórnin hefur undirbúið kaup á hjólaskýli og fleiri hjólum sem og kaup á rafdrifnum hjólastól. Þetta er í vinnslu og kemur til kasta næstu stjórnar.  

Stjórnin fjallaði talsvert um Hollvinastofu, hvort hún væri jafn vel nýtt og áður og hvort rétt væri að opna inn í hina setustofuna en það sjónarmið kom einnig fram að gott væri að hafa lokað rými fyrir rólegheit. Þetta væri gott að taka til áframhaldandi umræðu og jafnframt það hvort þörfum dvalargesta sé réttilega sinnt með tilliti til beggja kynja.

Eins og stjórnarárið hófst með tímamótum lýkur því þannig. Fyrir skömmu var tekin fyrsta skóflustungan að nýju íbúðarhverfi austan við Heilsustofnun en þar verða byggðar 84 íbúðir í fimm klösum og er áætlað að afraksturinn fari í að bæta aðstöðu stofnunarinnar.

Við lítum því björtum augum til framtíðar og þökkum fyrir tækifærið til að láta gott af okkur leiða í þágu dvalargesta Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands.

  • Ársreikningur. Margrét Grímsdóttir gjaldkeri stjórnar fór fyrir ársreikning félagsins. Heildartekjur voru 2.863.846 kr. og greiddu 759 hollvinir árgjald. Heildarkostnaður 4.329.937 kr. Sjóðstaða í lok árs 2021 var 4.287.275 kr.

Fundarstjóri bauð orðið laust um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins, enginn kvaddi sér hljóðs og var skýrsla stjórnar og reikningar félagsins samþykkt samhljóða..

  •  

Eftirtaldir sitja í stjórn

  • Þorleifur Gunnlaugsson formaður, kosinn til eins árs.
  • Valdimar Júlíusson kosinn til tveggja ára, 2022-2024
  • Ólöf Guðrún Hafsteinsdóttir, kosin til tveggja ára, 2022-2024
  • Margrét Grímsdóttir 2021-2023
  • Ólafur Hjálmarsson 2021-2023

Í varastjórn, kosin til eins árs:

  • Þuríður Guðrún Hauksdóttir
  • Ómar Einarsson  

Skoðunarmenn reikninga, kosnir til eins árs

  • Indriði Helgason
  • Þorkell Sævar Guðfinnsson
  • Lagabreytingar.  Eftirfarandi lagabreytingar voru samþykktar á fundinum

5.grein hljómar nú svo:

5. grein. Stjórn félagsins skipa fimm menn

Formaður skal kosinn til eins árs í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára
í senn, tveir ár hvert. Í varastjórn skulu kjörnir tveir aðilar til eins árs. Skoðendur reikninga skulu kjörnir tveir aðilar til eins árs
Óheimilt er að endurkjósa sama aðila til formanns oftar en þrisvar í röð.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, kýs sér varaformann, gjaldkera og ritara.
Stjórn er heimilt að skipa nefndir sér til ráðgjafar og til að vinna að einstökum
málum skv. ákvörðun stjórnar.

Samþykkt að fella út 8.grein sem hljómaði svo:

„8. grein. Stjórn skal kosin á aðalfundi og situr til eins árs í senn“.

9.grein hljómar nú svo:

9. grein. Til aðalfundar skal boðað í rafrænu fréttabréfi til félagsmanna og á heimasíðu Heilsustofnunar með minnst viku fyrirvara. Lögum samtakanna er einungis heimilt að breyta á aðalfundi og þarf til þess amk. 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögum til lagabreytinga skal skila 15 dögum fyrir aðalfund til stjórnar og skal stjórn geta þess í fundarboði, ef lagabreytingatillaga hefur komið fram.

Umræða skapaðist á fundinum um hvort að það þyrfti að auglýsa fundinn í dagblöðum en svo er ekki.

  • Önnur mál

Formaður velti því upp við fundarmenn hvort að það ætti að skoða Hollvinastofu m.t.t. breytinga. Margrét Grímsdóttir sagði að það væri hjartans mál að öllum líði vel hér í húsinu, Hollvinastofan mikið verið nýtt sem samkomustofa, prjónað og spjallað og það væri gott að fá tillögur eða athugasemdir frá dvalargestum um það sem mætti bæta.

Valgarður frá Blönduósi, sagði þau hjónin búin að vera hér í hálfan mánuð og vildi þakka fyrir það að það séu til Hollvinasamtök, fjölskyldan kom í heimsókn, mikil ánægja með matinn og hér er gott að vera, allt mjög snyrtilegt, „dásemdin ein“.

Fríða, gestur á fundinum hvað sér hljóðs og var með fyrirspurn um hvernig skráning færi fram hjá Hollvinum og hvernig greiðslufyrirkomulag væri. Því var svarað af Inga Þór; skráningarblöðum er safnað saman og aðstoðargjaldkeri skráir viðkomandi umsækjendur í félagaskrá og sendir um leið rukkun í heimabanka.

Fríða sagði í framhaldinu að hér á Heilsustofnun væri valinn maður í hverju rúmi og frábært að dvelja. Einnig sagði hún að Hollvinastofa væri yndislegt hreiður.

Fundarstjóri þakkaði fyrir sig og formaður þakkaði fundargestum fyrir komuna og sleit fundi kl.20:30.

Fundaritari

Ingi Þór Jónsson